Engir múrar á milli þjónustuveitenda

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg og Hveragerðisbær, ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru í hópi sex heilbrigðisstofnana og 22 sveitarfélaga sem munu taka þátt í þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir og var áhuginn mikill.

Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast en með henni taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Tækifæri til að auka og bæta þjónustuna
„Þjónusta heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga við eldra fólk er oft nátengd og þörf á þjónustu frá báðum aðilum. Því skiptir miklu máli að það séu engir múrar á milli þjónustuveitenda, heldur sameinist þeir um að veita notendum samfellda og einstaklingmiðaða þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins. Það er m.a. markmið áætlunarinnar Gott að eldast og ég er sannfærður um að þróunarverkefnin muni laða fram mikil tækifæri til að auka og bæta þjónustu á þessu sviði,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Margvíslegar aðgerðir
Auk ofangreindra þróunarverkefna verður undir merkjum Gott að eldast ráðist í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlega þjónustu og stórbættan aðgang að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.

Allar aðgerðir miða að því að tryggja eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst og á þeirra eigin forsendum.

Fyrri greinHellisheiðin opin
Næsta greinBesti liðsfélaginn fer ekki fet