Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að stofna enn einn vinnuhópinn um menningarsalinn í Hótel Selfossi.
Síðustu fréttir af menningarsalnum voru skrifaðar á sunnlenska.is haustið 2020 þegar fjárlagafrumvarp ársins 2021 var kynnt. Þar var gert ráð fyrir aukafjárveitingu upp á 140,5 milljónir króna til framkvæmdanna og gert ráð fyrir annarri eins upphæð árið 2022. Salurinn átti að vera tilbúinn árið 2022 en „framkvæmdirnar“ voru hluti af fjárfestingum ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Síðsumars 2020 var stofnuð byggingarnefnd um salinn og stefnt var að útboði í upphafi árs 2021, sem ekkert varð af. Salurinn í Hótel Selfossi hefur staðið fokheldur í tæp 40 ár og veltst um í kerfinu, á milli eigenda og fjöldi vinnuhópa og nefnda hefur fjallað um málefni hans.
Menningarsalur Suðurlands
Á fundi sínum í gær samþykkti bæjarráð að endurskipa starfshópinn en hann skipa nú Kjartan Björnsson, Guðbjörg Jónsdóttir og Ellý Tómasdóttir. Þá var samþykkt að breyta málsheiti salarins í Menningarsalur Suðurlands.
Með Kjartani, Guðbjörgu og Ellý munu starfa sérfræðingar af mannvirkja- og umhverfissviði og fjölskyldusviði ásamt bæjarstjóra og bæjarritara. Markmið hópsins er að taka stöðu á verkefninu, semja um aukið fjármagn frá ríkinu og setja upp áætlun um fjármögnun og hefja samtal við hagsmunaaðila.