Rennsli er enn að aukast í Hvítá og Ölfusá og er mikið vatn í öllum þverám Hvítár og mjög mikið í Soginu en rennsli þar fór í 250 m3/s og hefur ekki verið jafn mikið síðan 1999.
Rennsli hefur ekki náð hámarki í Hvítá við Fremstaver svo líklega nær Ölfusá við Selfoss ekki hámarki fyrr en á laugardagsmorgun. Líklegt er að hámarksrennsli Ölfusár við Selfoss geti farið yfir 1.000 m3/s en það gerðist síðast í febrúar 2013.
Mjög mikið vatn er í ám við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul eins og t.d. í Krossá, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Djúpá. Enn er mikil rigning á svæðinu og styttir ekki upp fyrr en í kvöld.
UPPFÆRT 17:40: Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni náði rennsli í Hvítá við Fremstaver hámarki í gærkveldi og í morgun í Ölfusá við Selfoss. Hámarksrennsli í Ölfusá var tæplega 800 m3/s. Það gæti tekið vatnið nokkra daga að sjatna.