Enn hækkar í Ölfusá

Áin rennur yfir göngustíg við Bakkahverfið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vatnsborð Ölfusár við Selfoss heldur áfram að hækka vegna íss og krapa í ánni en klukkan 14:45 í dag sýndi vatnshæðarmælirinn við Selfosskirkju 4,99 metra sem er það hæsta sem hann hefur sýnt í vikunni.

Áin flæðir yfir bakka sína í kringum Ölfusárbrú og þar fyrir neðan. Aðeins neðar í ánni, fyrir ofan Bakkahverfið, rennur hún meðal annars yfir malbikaðan göngustíg.

Lögreglan fylgist vel með gangi mála við ána og skoðar hana meðal annars með dróna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það hefur verið mikil umferð við ána í dag og eru bæjarbúar mjög áhugasamir um þetta sjónarspil. Að svo stöddu er engin hætta á ferðum og engin mannvirki í hættu. Í gær var unnið að því að grafa yfir nýju hitaveitulagnirnar við árbakkann ef jakar úr ánni færu á land og yfir opna skurði með nýju hitaveitulögninni.

Í gær var unnið að því að verja nýja hitaveituskurðinn við Ölfusárbrú fyrir mögulegum jakaburði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Óvenju mikill ís svona snemma veturs
Sunnlenska.is hitti Einar Sindra Ólafsson, jarðfræðing hjá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands, á árbakkanum í dag. Hann hefur fylgst vel með þessum atburði í vikunni og segir áhugavert hve ísfull áin sé svo snemma veturs. „En við þurfum bara að bíða og sjá hvort að þetta sé búið að ná einhverju jafnvægi. Það er spáð veðrabrigðum annað kvöld með skammlífum hlýindum og þá verður áhugavert að sjá hvort að hún nái að ryðja einhverju af sér,“ segir Einar Sindri.

Einar Sindri Ólafsson fylgist vel með gangi mála á bökkum Ölfusár. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í nótt sendi vakthafandi sérfræðingur á Veðurstofunni út tilkynningu þar sem varað var við ísstíflum sem hafa myndast víða, til dæmis í Ölfusá og Hvítá. Ástandið gæti varað fram yfir helgi, enn á mánudag er er spáð hlýindum.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru við Ölfusá í dag.

Básinn við Selfosskirkju er fullur af ís og vatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vatnsmesta fljót landsins er í vígahug þessa dagana. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Mikið af fólki er á ferðinni við árbakkann til þess að fylgjast með sjónarspilinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Áin flæðir yfir bakka sína fyrir neðan Ölfusárbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Brúarstöpullinn er umflotinn vatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGul viðvörun: Hríðarveður og skafrenningur
Næsta greinGoðasteinn 60 ára