Enn mikil hætta á smitdreifingu

Matvælastofnun á Selfossi. sunnlenska.is/Helga RE

Eins og sunnlenska.is greindi frá greindist skæð fuglainflúensa í kalkúnum í Auðsholti í Ölfusi síðastliðinn þriðjudag. Aðgerðir hafa gengið vel en hætta á smitdreifingu er enn mikil.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun eru fuglaeigendur og almenningur beðnir um að vera vel vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum eða óeðlilegum dauða. Minnt er á að fuglaflensa getur mögulega borist í fólk, sem er í náinni snertingu við veika fugla, en ekki er hætta af neyslu afurða.

Allir fuglar aflífaðir samdægurs
Þetta er í fyrsta skipti sem skæð fuglainflúensa greinist hér á landi á alifuglabúi. Fram til þessa hafa greiningar verið einskorðaðar við villta fugla og einn lítinn hóp heimilishænsna árið 2022.

Um leið og greining fuglainflúensunnar var staðfest var hafist handa við aðgerðir. Allir fuglar í viðkomandi húsi voru aflífaðir samdægurs með mannúðlegum hætti. Í dag hefur verið unnið að förgun á hræjum og öðrum sóttmenguðum úrgangi, sem og þrifum og sótthreinsun á húsinu.

Strangari reglur í 10 km radíus
Ekki er vitað hvernig smitið barst inn á kalkúnabúið en veiran sem um ræðir er af gerðinni H5N5, sem er það afbrigði veirunnar sem hefur greinst í villtum fuglum í haust. Niðurstöður raðgreininga á veirunni sem greindist í kalkúnunum eru væntanlegar í næstu viku og þá kemur í ljós hvort um nákvæmlega sama afbrigði er að ræða og það sem hefur fundist í villtum fuglum undanfarið.

Strangari reglur hafa verið fyrirskipaðar á svæði í 10 km radíus út frá smitaða húsinu og hafa allir alifuglaeigendur á því svæði verið upplýstir um þær. Meðal annars er nú bann við flutningi á fuglum og öllu sem getur borið smitið út af búunum, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Þær takmarkanir sem lagðar hafa verið á munu gilda að öllu óbreyttu til 28. desember en tíminn framlengist ef smit kemur upp í fleiri alifuglahúsum.

Fyrri greinRafleiðni og vatnshæð hækkar í Leirá-Syðri og Skálm
Næsta greinVæri til í að vera gestur hjá Hemma Gunn