Snör handtök húsráðenda björguðu því að ekki varð mikið tjón þegar eldur kom upp í þakskyggni einbýlishúss í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi í kvöld.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn laust eftir klukkan hálftíu og fóru fjórir slökkvibílar frá Selfossi á staðinn ásamt lögreglu og sjúkraliði.
„Það kom upp eldur í þakskyggni hússins en þegar við komum á vettvang voru húsráðendur búnir að slökkva hann með dufttæki. Enn og aftur sanna slökkvitækin gildi sitt,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
„Það má því þakka snörum handtökum húsráðanda að ekki fór verr. Slökkviliðsmenn leituðu af sér allan grun með hitamyndavél um að ekki leyndist eldur í þakinu og slökktu í glæðum,“ bætti Pétur við.
Slökkviliðið hefur lokið störfum á vettvangi en lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.