Helgin var lögreglumönnum á Selfossi erfið vegna slysa. Eins og fram hefur komið varð mjög alvarlegt umferðarslys á Hellisheiði miðjan dag í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni er líðan ungu konunnar, sem slasaðist í slysinu, enn óbreytt. Ástand hennar er metið alvarlegt og er henni haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.
Eftir hádegi í gær datt kona þegar hún var á göngu í Ingólfsfjalli fyrir ofan Þórustaðanámu. Björgunarsveitarmenn báru konuna niður fjallið og var hún flutt á slysadeild í Reykjavík. Konan fann til eymsla í öxl og mjöðm.
Á sama tíma datt kona við Strokk í Haukadal en lögreglumenn gátu ekki sinnt því verkefni þar sem þeir voru að sinna slysinu í Ingólfsfjalli. Sjúkraflutningamenn frá Selfossi fóru á vettvang ásamt vettvangshjálparliði Björgunarfélagsins Eyvindar í Hrunamannahreppi. Konan, sem hlaut lærleggsbrot, var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans.
Um hádegi á laugardag hlaut karlmaður opið beinbrot á handlegg þegar hann féll af vélsleða sem fór fram af klettabrún við Klukkuskarð sem er suður af Skjaldbreið. Þyrla Gæslunnar sótti manninn og flutti á slysadeild Landspítala.
Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna um helgina. Auk þess reyndust tveir þeirra réttindalausir þar sem þeir höfðu áður verið sviptir ökurétti.