Erfiðar aðstæður á Kili

Björgunarsveitarmenn hafa náð til allra jeppamannanna sem óskuðu aðstoðar í dag vegna mjög slæmrar færðar á Kjalvegi nálægt Bláfellshálsi.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu er um að ræða sextán manns á 5-6 jeppum. Mikill krapi er á þessum slóðum og allstaðar blátt yfir að líta að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörgu.

Fólkið óskaði aðstoðar um miðjan dag í dag og fóru björgunarsveitarmenn úr Biskupstungum af stað á tveimur bílum milli klukkan þrjú og fjögur í dag. Þegar þeir sáu hvað aðstæður voru erfiðar voru kallaðir út þrír bílar í viðbót.

Auk Tungnamanna fóru björgunarsveitarmenn úr Ingunni á Laugarvatni og Eyvindi í Hrunamannahreppi í útkallið. Reiknað er með að fólkið komi til byggða í nótt.

Fyrri greinEkkert ferðafæri á hálendinu
Næsta greinLeitað að hestamanni í Gnúpverjahreppi