Útlit er fyrir hallarekstur hjá mörgum sveitarfélögum á Suðurlandi á næsta ári. Vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélaga fyrir árið 2016 stendur yfir þessi dægrin.
Liggur ástæðan í gríðarlegum launahækkunum hjá starfsfólki sveitarfélaga, hvort sem er kennurum eða almennum starfmönnum.
Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar er ljóst að mæta verði þessum útgjöldum á einhvern hátt og verið er að fara yfir tillögur og möguleika í þeim efnum.
Aðspurð um hækkun ýmissa tekjustofna, sagði Ásta ekki búið að ákveða slíkt . Bæjarstjórn Árborgar hefur líkt og fleiri sveitarstjórnir, ályktað um nauðsyn þess að sveitarfélög fái hlutdeild í tekjustofnum ríkissjóðs, og hafa verið nefndir til sögunnar skattar af umferð og fleira.