Hulda Einarsdóttir frá Hæli í Hreppum hefur vakið athygli á Facebook að undanförnu vegna teikninga af fílum sem hún hefur hannað og teiknað sjálf.
Hulda býr í Hafnarfirði ásamt börnum sínum og er að ljúka grunnnámi í listfræði og stefnir á frekara listnám í framtíðinni.
„Listsköpun hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu og mun alltaf vera. Með áframhaldandi námi mun ég vonandi þróa með mér nýjar hugmyndir þannig ég er alls ekki hætt að skapa,” segir Hulda.
Afrískir fílar með indversku mynstri
Spurð um hvað varð til þess að hún fór að hanna fílamyndir segir Hulda að hún hafi eignast dóttir á síðasta ári sem er hálf indversk. „Fyrir á ég son sem er hálf afrískur og hafa þau mótað mig mikið. Því langaði mig til þess að búa til listaverk sem myndi sameina bakgrunn þeirra beggja,” segir Hulda sem segir að fílarnir séu afrískir með indversku mynstri. Hún skírði svo fílana Elepas sem er heitið á indverska fílnum.
Þrjár til fimm klukkustundir með eina mynd
Hulda segir að til að byrja með hafi hún verið að teikna gíraffa sem henni fannst ekki koma nógu vel út. „Hugmyndin þróaðist svo smám saman og ég fór að prófa að gera nokkrar týpur af fílum, bæði bleika og svarthvíta.” Í hverri mynd eru mörg smáatriði sem gerir það að verkum að Hulda er frekar lengi með hverja mynd. „Hvert einasta strik og hver einasti punktur er teiknaður þannig það er mikil handavinna á bakvið fílana. Ég notast ekki við nein tilbúin munstur heldur geri ég þetta allt frá grunni. Þar af leiðandi tekur hver mynd þrjá til fimm klukkutíma, en það fer allt eftir stærð myndanna og lögun fílana.”
Pínulítið skotin í fílunum
Hulda segir að í mörg ár hafi hún teiknað eingöngu eftir ljósmyndum af fólki og hafi verið svolítið föst í þeim kassa. „Þó fílarnir séu raunverulegir að lögun og formi þá get ég breytt innihaldinu eins og mér dettur í hug. Leyft sköpunargleðinni að ráða og mér finnst mjög gaman að þróa þessa hugmyndmeðfílanaáfram,”segir Hulda og bætir því við að fílarnir séu sitt nýja uppáhald. „Enda væri erfitt að teikna þá eins oft og ég hef gert undanfarið ef maður væri ekki pínulítið skotin í þeim,” segir Hulda og hlær.
Enginn fíll eins
Hulda notar tvennskonar tússliti til þess að teikna fílana og bleikan yfirstrikunarpenna fyrir bakgrunn bleiku fílanna. Myndirnar eru í tveimur stærðum, A3 og A4. „Minni myndirnar kosta 5 þúsund krónur og stærri myndirnar kosta 7.900 krónur. Fílarnir koma í hvítum ramma en hægt er að panta fíla í gegnum Facebook,” segir Hulda sem segir að fílarnir henti vel þegar gefa á tækifærisgjafir en flestir viðskiptavina hennar eru á þrítugsaldri. „Engir tveir fílar eru nákvæmlega eins og það er gaman að eiga eitthvað sem er einstakt. Ég tala nú ekki um ef þeir koma vel út upp á vegg,” segir Hulda að lokum.