Nokkur erill hefur verið hjá björgunarsveitum um helgina og er björgunarsveitarfólk nú statt hjá örmagna göngukonu á Kattarhryggjum í Þórsmörk.
Sveitir á Suðurlandi voru kallaðar út á sjöunda tímanum í kvöld eftir að konan sem var á göngu með hópi fólks var orðin örmagna og orkulaus, hún gat ekki haldið göngu áfram. Kattarhryggir eru hluti af gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls, mjóir fjallshryggir og mikill bratti sitthvoru megin.
Björgunarsveitarfólk hefur reynt að koma orku í konuna en það gengur illa og er því beðið hjá henni, eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar sæki konuna.
Bílar fastir víða á hálendinu
Í gær komu sjálfboðaliðar björgunarsveitanna ökumönnum þriggja bíla til aðstoðar sem höfðu fest bíla sína á hálendinu. Bíll sat fastur í Hólmsá að Fjallabaki, á Sprengisandsleið var bíll fastur í leðju og björgunarsveitarfólk flutti einnig farþega úr biluðum bíl á Hlöðufellsvegi. Nokkuð var einnig um að aðstoða þurfti sjúkraflutningamenn við að flytja slasaða einstaklinga, meðal annars við Svartafoss.
Eftir hádegið í dag kom björgunarsveitarfólk síðan bónda til aðstoðar, við að reka hjörð af nautgripum yfir Tungufljót.