Talsverður erill var hjá lögreglunni á Suðurlandi um helgina en alls eru 111 mál skráð í dagbókina frá því á föstudaginn.
Alls voru tólf kærðir fyrir hraðakstur og sá sem hraðast ók var á 133 km/klst hraða. Einn þessara ökumanna reyndist einnig undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda.
Þrír aðilar voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og einn undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna. Einn var kærður fyrir að nota ekki viðeigandi öryggisbúnað fyrir barn í bifreiðinni. Tvö umferðarslys urðu en enginn slasaðist alvarlega. Í öðru þeirra er ökumaður grunaður um ölvun.
Kannabisræktun og líkamsárás
Lögreglan upprætti kannabisræktun í heimahúsi og haldlagði ríflega 40 kannabisplöntur, þá komu þrjú þjófnaðarmál á borð lögreglu og í einu þeirra var um ólögráða einstaklinga að ræða.
Ein líkamsárás var kærð og er það mál til rannsóknar. Alls voru þrír einstaklingar vistaðir í fangageymslu um helgina.
Eins og fram hefur komið í fréttum varð alvarlegt slys við Tungufljót síðdegis í gær þar sem karlmaður féll í ána. Straumvatnsbjörgunarmenn náðu manninum úr ánni en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.