Lögreglumenn á Selfossi áttu erilsama helgi þar sem stór og smá verkefni af komu til úrlausnar. Í gær fótbrotnaði karlmaður þegar hann féll á svelli við golfvöllinn í Kiðjabergi í Grímsnesi.
Maðurinn var á göngu þegar óhappið varð. Hann var fluttur á Heilsugæsluna á Selfossi og í framhaldi af því á Landspítalann þar sem hann gekkst undir aðgerð.
Bifreið fór útaf Suðurlandsvegi í Hveradalabrekku um klukkan 18 á laugardag og valt nokkrar veltur. Ökumaður var einn í bifreiðinni á leið austur. Hann hafði misst stjórn á bifreiðinni í hálku. Sjúkrabifreið var kölluð á staðinn og var ökumaður fluttur á Slysadeild Landspítala vegna eymsla í baki.
Síðdegis á föstudag fór bifreið útaf Eyrarbakkavegi skammt austan við Eyrarbakka. Bifreiðin hafnaði á grjóti. Ökumaðurinn fann til eymsla í baki og var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Selfossi. Bifreiðin var talsvert mikið skemmd eftir óhappið.