Erilsöm helgi er að baki hjá lögreglunni á Selfossi. Lögreglumaður sem var einn í eftirliti í nótt hafði afskipti af ökumanni á Selfossi sem reyndist ölvaður og sviptur ökuréttindum.
Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina þar sem tekin voru blóðsýni og hann yfirheyrður.
Tveir aðrir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina. Sextán ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í síðustu viku, fjórir fyrir að vera ekki með öryggisbelti.
Svo virðist sem margir bifreiðaeigendur hafi látið farast fyrir að endurnýja ábyrgðartryggingu ökutækja sinna en slíkt er mjög alvarlegt mál verði ökumaður valdur að tjóni. Sjö bifreiðar voru teknar úr umferð vegna vanrækslu á vátryggingarskyldu.
Frá áramótum hafa sautján bifreiðaeigendur verið kærðir fyrir þetta brot. Eins og áður hefur verið getið um er sektin 30 þúsund krónur.