Erlendur ferðamaður á 169 km/klst hraða á Hellisheiði

Fyrstu tíu daga marsmánaðar hafa 59 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi. Meirihlutinn eru erlendir ökumenn og þeir greiða að jafnaði hærri sektir.

Af þessum 59 ökumönnum eru sautján Íslendingar sem að jafnaði greiða 43.235 krónur í sekt í hvert sinn eða samtals 735.000 krónur.

Erlendir ökumenn eru 41 og greiða að jafnaði 61.463 krónur í sekt í hverju máli eða samtals rúmlega 2,5 milljónir króna.

Hærri meðalsektir á erlendu ökumennina stafa af því að þeir aka mun haraðar en þeir íslensku. Til dæmis var taívanskur ökumaður sektaður um 150 þúsund krónur og sviptur ökurétti í þrjá mánuði eftir að hafa verið mældur á 169 km/klst hraða á Hellisheiði.

Þá var bandarískur ökumaður mældur á 147 km/klst hraða í Eldhrauni og Svisslendingur var mældur á sama hraða á Mýrdalssandi. Þessi tveir voru einnig sviptir ökurétti í einn mánuð vegna brota sinna.

Fyrri greinHéraðsþing í Hveragerði á laugardag
Næsta greinSlys í Silfru