Listakonan Erna Skúladóttir frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi hlaut á dögunum fyrstu verðlaun fyrir verkið ‘Still Waters’ á European Glass and Ceramic Context sýningunni á Bornholm í Danmörku.
„Ég er mjög stolt af verðlaununum. Það er mikill heiður fyrir mig og viðurkenning að hljóta þau,“ segir Erna sem er leir- og myndlistarmaður, menntuð á Íslandi og í Noregi.
„Ég hef um árabil unnið og starfað að minni myndlist í Noregi en er núna nýflutt aftur heim til Íslands þar sem ég bý í sveitinni í Hrunamannhreppi. Ég vinn með leir á tilraunakenndann hátt þar sem ég nýti mér oft gamlar tækniaðferðir úr keramik heiminum en túlka þær upp á nýtt og nýti til að skoða efnið frá öðrum hliðum. Ég vinn staðbundin verk þar sem ég skoða landslag, landslagsmyndun og jarðfræðisögu og nýti til að beina sjónum að atburðum líðandi stundar eða sögu þess staðar eða rýmis þar sem ég er stödd. Verkin beinast einkum að því að skoða flæði og umbreytingar í landslagi, vinnslu á hráefnum úr jörðu og hvernig sú vinnsla hefur áhrif á nútíð og framtíð,“ segir Erna ennfremur.
Fjórir Íslendingar sýna
European Glass and Ceramic Context samanstendur af tveimur sýningum, Open Call og Curated. Fjórir listamenn tóku þátt fyrir hönd Íslands í sýningunni tveir í hvorri sýningu, þær Erna og Hildigunnur Birgisdóttir í Curated sýningunni og Kristín Sigfríður Garðarsdóttir og Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir í Open Call sýningunni
Samtals taka 100 manns þátt í sýningunum víðs vegar að úr Evrópu. Sýningunum er ætlað að sýna það besta og áhugaverðasta sem er að gerast í leir og keramik heiminum í Evrópu í dag og er mikill heiður að fá að taka þátt.
Verkið ´Still Waters´ eftir Ernu Skúladóttur.