„Erum rólegir en fylgjumst vel með“

Allt frá því jarðskjálftahrinan í Bárðarbungu hófst um síðustu helgi hefur lögreglan á Hvolsvelli fylgst vel með stöðu mála í jöklinum.

Laugardaginn 16. ágúst lýsti Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Hvolsvelli og Húsavík yfir óvissustigi vegna jarðhræringa í Bárðarbungu. Síðan þá hefur virknin verið að færast í norðaustur og telja vísindamenn nú að ef eldgos hefjist muni það valda jökulhlaupi í Jökulsá á Fjöllum, en ekki á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu.

Þrátt fyrir að skjálftavirknin hafi færst norðar og austar fylgjast Rangæingar vel með stöðu mála og segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, að þar á bæ verði áfram farið yfir gögn varðandi hugsanleg flóð úr Vatnajökli.

„Fyrir það fyrsta þá vonum við að ekki verði gos, að minnsta kosti ekki undir jökli. Við höfum verið að fara yfir þau gögn sem til eru varðandi hugsanleg flóð úr Vatnajökli og munum halda þeirri vinnu áfram, í samvinnu við lögregluna á Selfossi, en virkjanirnar í Þjórsá tilheyra þeim einnig,“ sagði Sveinn í samtali við sunnlenska.is.

„Eins og er erum við rólegir, en við fylgjumst vel með og erum að vinna að áætlunum byggðum á þeim gögnum sem við höfum nú þegar. Við erum einnig í góðu sambandi við Landsvirkjun og Landsnet, sem búa yfir töluverðu magni upplýsinga og rannsókna tengdum stíflumannvirkjum í Þjórsá,“ sagði Sveinn ennfremur.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru engin merki um að kvikan sé að færa sig nær yfirborðinu og engin merki eru um eldgosavirkni. Þrátt fyrir það er ekki er hægt að útiloka að þessi virkni geti leitt til sprengigoss sem myndi valda jökulhlaupi og losun ösku út í andrúmsloftið.

Fyrri greinStórsigur Stokkseyringa í lokaumferðinni
Næsta greinÓskar ráðinn á Landspítalann