Í dag útskrifuðust 108 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar af 55 stúdentar. Selfyssingurinn Esther Hallsdóttir náði bestum heildarárangri og er dúx skólans.
Esther brautskráðist af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 9,52 og hlaut við brautskráninguna viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum.
Esther hlaut að auki viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu ásamt þeim Ólöfu Björk Sigurðardóttur og Sigrúnu Jónsdóttur. Ólöf Björk hlaut að auki viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í þýsku, dönsku, spænsku og íslensku og góðan heildarárangur í tungumálum. Sigrún hlaut einnig viðurkenningar fyrir frábæran árangur í ensku, eljusemi og dugnað í fimleikaakademíu og frábæran árangur í stærðfræði og eðlisfræði.