„Þetta kallar á að við þurfum að taka fastar á rekstrinum," segir Eyþór Arnalds formaður bæjarráðs og oddviti meirihlutans í Sveitarfélaginu Árborg.
Árborg er meðal sveitarfélaga sem hafa fengið áminningarbréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna mikilla skulda og viðvarandi rekstrarhalla.
Bréf eftirlitsnefndarinnar var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Árborgar í gærmorgun en þar kemur fram að hlutfall skulda Árborgar telja 207% af árlegum heildartekjum. Þá eru gerðar athugasemdir við að framlegðarhlutfall sé lágt, en það er 4,4% á síðasta ári, langt undir viðmiðum eftirlitsnefndarinnar upp á 15 til 20%.
Í bréfinu er því beint til bæjaryfirvalda að senda inn greinargerð innan 30 daga um hvernig brugðist verði við þessari slæmu fjárhagsstöðu og að nefndinni þurfi að berast upplýsingar um endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir næstu þrjú árin. Eftir mánuð muni nefndin funda með bæjaryfirvöldum um framvindum mála.
Í samtali við mbl.is segist Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, taka bréfið alvarlega. „Þetta er ekki eins og að fá gula spjaldið í íþróttum og lofa að brjóta ekki af sér aftur. Í þessu tilviki þarf virkilega að bæta upp og sýna fram á betri vinnubrögð,“ segir Eyþór.
„Þetta er það sem við töluðum um í minnihlutanum fyrir kosningar en fengum gagnrýni fyrir. Nú er komin staðfesting á þessu frá eftirlitsnefndinni,“ segir Eyþór.