„Eyjafjallajökull spennandi fyrirbæri”

Bókunarstaða er mjög góð meðal ferðaþjónustuaðila í Vík í Mýrdal og nágrenni að sögn Elíasar Guðmundssonar í Víkurskála.

„Það er að koma á daginn að Eyjafjallajökull er spennandi fyrirbæri í hugum erlendra ferðamanna. Við erum að njóta þess núna,” sagði Elías í samtali við Sunnlenska.

Að sögn Elíasar er bókunarstaða hjá honum talsvert betri en árið 2009 en ekki sé hægt að miða við bókanir síðasta árs þar sem ferðaþjónustan hafi verið mjög lengi að ná sér eftir eldgosið. Nú væri annar blær á öllu.

„Það er mikið að gerast í ferðaþjónustu hérna á svæðinu en mér telst til að hér séu á milli 20 og 25 ferðaþjónustuaðilar. Þessi starfsemi hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum,” sagði Elías ennfremur.

Fyrri greinLífsspeki á striga
Næsta grein„Ég missti vin í bílslysi