Eymdin alelda

Neyðarlínan fékk tilkynningu um eld í húsi við Eyrarbraut á Stokkseyri laust eftir klukkan 19 í kvöld. Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn var húsið alelda.

Slökkvistarf stendur ennþá yfir en allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi, Stokkseyri og Þorlákshöfn var kallað á vettvang.

Mikinn reyk lagði frá húsinu og var hluta Eyrarbrautar lokað svo að viðbragðsaðilar gætu athafnað sig.

Um er að ræða nýlegt, stórt einbýlishús sem stendur við sjóvarnargarðinn og gekk undir nafninu Eymdin. Upphaflega stóð þar veiðarfæraskúr, sem var endurbyggður á þennan hátt. Byggingabann var sett á húsið þegar það var risið árið 2008 þar sem burðarþol þess var ófullnægjandi. Húsið hefur lengi staðið mannlaust en síðustu mánuði hefur verið unnið að endurbótum á húsinu.

Í október síðastliðnum brann vinnuskúr á lóðinni við húsið.

Eldsupptök eru ókunn en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi mun rannsaka málið.


sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Hluta Eyrarbrautar var lokað á meðan á slökkvistarfi stóð. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinLeitað á milli Eyrarbakka og Grindavíkur
Næsta greinÖruggur sigur Selfoss í uppgjöri botnliðanna