„Málið er leyst,“ segir Bárður Guðmundsson, byggingafulltrúi Árborgar, um Eymdina, íbúðarhús Guðjóns Bjarnasonar við Eyrarbraut á Stokkseyri.
Byggingabann hefur hvílt á húsinu undanfarin tvö ár vegna ófullnægjandi burðarþols. Guðjón skuldar sveitarfélaginu 37 milljónir í dagsektir, miðað við ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í apríl 2008 um að hann skyldi greiða 50 þúsund króna dagsekt þar til málið yrði til lykta leitt.
Samkvæmt heimildum Sunnlenska mun sveitarfélagið afskrifa sektina en ganga á eftir greiðslu fyrir útlagaðan lögmanns- og verkfræðikostnað.
Í Sunnlenska fréttablaðinu segir Bárður að verið sé að leggja lokahönd á nýja hústeikningu, unna í samræmi við samkomulag hans og Guðjóns. Í framhaldinu verði stoðir hússins styrktar.