Fyrsta skóflustungan í nýjum miðbæ Selfoss verður tekin kl. 18:00 í dag í Sigtúnsgarði. Allir eru velkomnir en boðið verður upp á grillaðar pylsur og léttar veitingar.
Það er Sigtún þróunarfélag ehf sem mun byggja upp nýja miðbæinn en þar á að reisa 25 hús sem öll eiga sér sögulegar fyrirmyndir.
Þegar verkefnið var kynnt á dögunum sagði forsætisráðherra að nýi miðbærinn myndi tryggja ímynd Selfoss og Árborgar og mynda skemmtilegan þríhyrning með gömlu þorpunum á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Þessu eru ekki allir sammála og hefur Átthagafélag Eyrarbakka meðal annars boðað til friðsamlegra mótmæla þegar skóflustungan verður tekin í dag. „Við erum með fleiri en 25 söguleg hús á Eyrarbakka og sveitarfélagið ætti að sjá sóma sinn í því að styðja byggðina á Bakkanum og auka ferðamannastrauminn þangað, frekar en að sviðsetja söguna í miðbæ Selfoss,“ segir í tilkynningu sem átthagafélagið sendi frá sér eftir hádegi í dag.
Þar eru Eyrbekkingar hvattir til að fjölmenna á Selfoss og mótmæla framkvæmdunum sem nú eru að hefjast.
UPPFÆRT KL. 22:46: FRÉTTIN ER APRÍLGABB!