Gengið hefur verið frá hlutafjáraukningu hjá Sæbýli ehf. á Eyrarbakka og hefur fjárfestingafélagið Eyrir sprotar bæst í hluthafahópinn.
Þeir hafa eignast 24% í félaginu og hefur verið tekin ákvörðun um að auka framleiðsluna frá því sem fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Um leið hefur félagið keypt húsnæði það á Eyrarbakka sem notað hefur verið fyrir starfsemina.
Að sögn Ásgeirs Guðnasonar, framkvæmdastjóra Sæbýlis, er sérlega ánægjulegt að fá jafn reynda fjárfesta og Eyrismenn inn í hluthafahópinn. Stefnt er að því að fyrsta framleiðsla Sæbýlis fari á markað 2015.
Sæbýli ehf. hefur þróað sjálfbært eldiskerfi (SustainCycle) fyrir botnlæg sjávardýr eins og japönsk sæbjúgu, sæeyru eða ígulker. Dýrin eru seld lifandi úr landi en fyrir þau fæst mjög hátt verð á mörkuðum í Asíu. Sæbýli er nýsköpunarfyrirtæki sem byggir á ríflega 20 ára þekkingarsöfnunar á sæeyrnaeldi. „Það er ljóst að við getum þetta og horfum nú bjartsýnir fram á veginn,” sagði Ásgeir.