Eyrún Halla stóð öðrum framar

Í dag brautskráðust 117 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands við hátíðlega athöfn.

Í þessum hópi voru 69 stúdentar og flestir útskrifuðust af félagsfræðabraut, eða 36. Níu nemendur brautskráðust af tveimur brautum.

Bestum árangri nýstúdenta náði Selfyssingurinn Eyrún Halla Haraldsdóttir. Hún hlaut sérstaka viðurkenningu frá skólanum fyrir árangurinn, auk þess sem hún fékk verðlaun í fjórum námsgreinum. Það gerir árangur Eyrúnar Höllu ekki síður glæsilegan að hún lauk stúdentsprófinu á þremur árum. Mjótt var á mununum milli Eyrúnar og Þórhildar Helgu Guðjónsdóttur, frá Selfossi, en báðar hlutu þær námsstyrk frá Hollvinasamtökum FSu.

Nokkuð margir smiðir luku sveinsprófi í húsasmíði, þrettán alls og sex nemendur útskrifuðust af starfsbraut. Þrír fangar af Litla-Hrauni útskrifuðust, þar af einn stúdent.

Fyrri greinÁrborg kaupir ekki Björgunarmiðstöðina
Næsta greinLíflegt skólastarf í skugga kreppu