Kór Menntaskólans að Laugarvatni og stjórnandi hans, Eyrún Jónasdóttir, fengu í dag afhent Menntaverðlaun Suðurlands á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Fjögur verkefni, eða einstaklingar voru tilnefnd til verðlaunanna; Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla á Selfossi, Anna Lára Pálsdóttir kennari í Vík í Mýrdal, leiklistarstarf í Flúðaskóla í Hrunamannahreppi og Kór Menntaskólans að Laugarvatni og stjórnandi hans Eyrún Jónasdóttir.
Í rökstuðningi með vali dómnefndarinnar segir að kórastarf eigi sér langa sögu á Laugarvatni en kór ML hefur verið starfræktur með hléum frá árinu 1977.
„Eyrún Jónasdóttir, núverandi stjórnandi, var ráðin til starfa haustið 2011 og undir hennar stjórn hefur starf kórsins vaxið mjög. Nefna má sem dæmi að síðastliðna tvo vetur hafa um 65% nemenda skólans verið í kórnum. Kóráfangar skólans eru nú einingarbærir valáfangar og eru því hluti af námsferli á útskriftarskírteini nýstúdenta. Nú þykir nemendum eftirsóknarvert að vera í kórnum og það er orðinn sjálfsagður og eðlilegur hluti af félagsstarfi skólans. Líklega er einsdæmi að um 2/3 allra nemenda framhaldsskóla séu í kór viðkomandi skóla,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
„Eyrún Jónadóttir hefur þá hæfileika og menntun sem skiptir sköpum í starfi stjórnanda kórs í framhaldsskóla. Hún er menntuð söngkona og miðlar góðri raddbeitingu, menntuð í kórstjórn og píanóleik og þekkir úr eigin kórstarfi fjölbreytt verkefni. Hún á gott með að halda uppi jákvæðum aga þannig að vináttusamband er á milli hennar og kórfélaga,“ segir ennfremur í rökstuðningnum.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin við fjölmenna athöfn í hátíðarsal FSu. Kórinn þakkaði að sjálfsögðu fyrir sig með undurfögrum söng, Vikivakar (Sunnan yfir sæinn) eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.