Eystri-Rangá er komin í fyrsta sæti yfir aflahæstu laxveiðiár á Íslandi með 686 laxa. Síðasta vika var mjög góð í Eystri-Rangá þar sem 281 lax kom á land.
Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 555 laxar í Eystri-Rangá en í ár gengur veiði vel á svæðinu og aðstæður eru ágætar.
Í öðru sæti er Urriðafoss í Þjórsá sem hefur verið efst á listanum vikum saman. Þar er veiðin komin í alls 560 laxa og gaf vikuveiðin 58 laxa.
Í fjórða sæti er Ytri-Rangá þar sem veiðin er komin í 291 lax og skilaði veiðivikan 127 löxum.
Í Ölfusá eru 68 laxar komnir á land, 42 í Stóru-Laxá og 36 í Hvítá við Langholt.
Á vef Landsambands veiðifélaga segir að þó viðvarandi þurrkatíð og sólbjartir dagar hafi ráðið ríkjum vikum saman og hamlað veiði þá náði smá úrkoma í síðustu viku að skila sér í árnar og lífgaði upp á veiði í kjölfarið um tíma. Töluverða úrkomu vantar sumstaðar til að færa vatnsbúskap í gott horf en einhver rigning er í kortunum næstu daga.