Eystri-Rangá er aflahæsta laxveiðiáin það sem af er sumri og mun lokatalan frá sumrinu 2009 verða bætt um komandi helgi.
Síðustu dagar hafa verið mjög góðir í Eystri-Rangá en um 150 laxar hafa verið að koma á land á dag. Aflinn er blandaður af nýjum laxi og legnum laxi og hafa efri svæðin verið að gefa vel undanfarna daga.
Nú hafa veiðst 3.955 laxar í Eystri-Rangá en í fyrrasumar veiddust þar 4.229 laxar. Áin á enn nokkuð í land til að slá aflametið frá árinu 2007 þegar 7.473 laxar komu á land.
Í Ytri-Rangá eru 3.584 laxar komnir á land og er áin í 2. sæti yfir aflahæstu árnar.