Seiðaeldisfyrirtækið Ísþór í Þorlákshöfn er hætt að selja seiði til Færeyja. Síðasti farmurinn fór þangað fyrir skömmu en að sögn Jónatans Þórðarsonar stöðvarstjóra verður ekki framhald á viðskiptunum.
Flutningur seiðanna hefur kallað á afföll og þau hafa ekki gengið sem skyldi.
Á móti kemur nýlegur samningur við Fiskeldi Austfjarða í Berufirði en samþykkt hefur verið að selja þangað eina milljón seiða sem afhent verða næsta vor. Það kemur til viðbótar þeirri milljón seiða sem framleidd eru fyrir Fjarðarlax, móðurfyrirtæki Ísþórs.
Hjá Ísþór eru nú sjö starfsmenn en ætlunin er að auka framleiðsluna upp í þrjár milljónir seiða og þá verður þessi stöð, sem byrjað var að byggja 1986, loksins komin í fullan rekstur.