Mótorhjólamaðurinn sem lögreglan á Selfossi veitti eftirför á Selfossi í gær á yfir höfði sér tíu kærur en hann var undir áhrifum fíkniefna.
Eins og sunnlenska.is greindi frá síðdegis í gær sá lögreglan manninn aka númerslausu hjóli um götur bæjarins og sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Hófst þá eltingarleikur sem lauk þar sem maðurinn festi hjól sitt utanvegar í Hellisskógi. Hann hélt áfram á hlaupum en það dugði honum ekki þar sem vel þjálfaður lögreglumaður hljóp hann uppi og handtók hjólamanninn.
Að sögn lögreglu á maðurinn tíu kærur yfir höfði sér, níu fyrir umferðarlagabrot af ýmsum toga og eina fyrir framleiðslu fíkniefna. Þegar lögreglan hafði hendur í hári hans vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna og því var farið í húsleit hjá honum þar sem fundust tíu kannabisplöntur.
Á meðal umferðarbrota sem maðurinn verður kærður fyrir eru háskaakstur, akstur undir áhrifum, akstur án ökuréttinda, akstur óskráðs ökutækis, utanvegaakstur, hraðakstur og akstur ótryggðs ökutækis.
Þá var kona stöðvuð á Suðurlandsveginum í nótt en vegfarandi tilkynnti lögreglu um undarlegt aksturslag hennar. Það kom á daginn því þegar lögregla hafði upp á henni var hún rásandi um allan veg og skapaði þar með stórhættu. Hún var handtekin og færð á lögreglustöð en hún reyndist vera undir verulegum áhrifum.