Fá frítt í sund en ekki ræktina

Bæjarstjórn Ölfuss hefur samþykkt að veita atvinnuleitendum í Ölfusi frían aðgang að Sundlaug Þorlákshafnar hluta dags. Á sama fundi var hafnað erindi um frían aðgang að líkamsræktaraðstöðu í íþróttamiðstöðinni.

Vinnumálastofnun á Suðurlandi sendi sveitarfélaginu erindi, líkt og öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi, þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið taki þátt í samstarfi sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar um sundkort fyrir atvinnuleitendur.

Bæjarstjórn samþykkti að veita atvinnuleitendum í Ölfusi frían aðgang að sundlauginni til hádegis á virkum dögum. Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum en fulltrúar D-listans greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Á sama fundi var tekið fyrir erindi frá Velferðarþjónustu Árnesþings þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið veitti atvinnuleitendum ókeypis aðgang að líkamsræktaraðstöðu í íþróttahúsinu. Bæjarstjórn hafnaði erindinu samhljóða.

Fyrri greinKrefjast lækkaðs eldsneytisverðs
Næsta greinSólarferð fær frábæra dóma