„Faðmlög og grátur og mikið þakklæti“

Fjöldahjálparstöðinni í Vallaskóla hefur verið lokað. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fjöldahjálparstöðinni í Vallaskóla á Selfossi hefur verið lokað og öllum Grindvíkingnum sem þangað leituðu um helgina hefur verið fundið varanlegt húsnæði.

„Það eru allir komnir í húsnæði sem þeir geta verið í til lengri tíma. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir Edda Björk Hjörleifsdóttir, formaður Rauða krossins í Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Síminn er búinn að hringja stanslaust hjá Eddu síðan á föstudaginn og hún segir að hún hafi ekki náð að fara yfir helminginn af öllum skilaboðunum og tölvupóstunum sem hún hefur fengið.

Starfsfólk Rauða krossins stóð vaktina í fjöldahjálparstöðinni í Vallaskóla, Selfossi. Edda Björk er fjórða frá vinstri (standandi). sunnlenska.is/Jóhann SH

Mun gráta þegar hún kemur heim
Edda segir að starfsfólk Rauða krossins í Árnessýslu sé nú að fara heim að hvíla sig eftir erfiða helgi. „Það eru miklar tilfinningar hjá fólki sem komu hingað og eðlilega hefur það áhrif á okkur líka. Við erum lítið búin að sofa. Ég veit hvað ég mun gera þegar ég kem heim á eftir – ég mun setjast niður og gráta.“

„Þegar við kveðjum fólkið sem fer héðan frá okkur þá eru það faðmlög og grátur og mikið þakklæti,“ segir Edda og bætir því við að þessi samheldni og samhugur meðal Sunnlendinga komi henni ekki á óvart. Hún hún lenti sjálf í miklum erfiðleikum fyrir nokkrum árum þegar eiginmaður hennar dó og þá hafi Sunnlendingar tekið vel utan um hana og veitt henni ómetanlegan stuðning.

Þakklát fyrir alla aðstoðina
Edda segir að fyrirtæki Vísir og Þorbjörn hafi reddað sínu starfsfólki húsnæði en svo hafi einstaklingar verið boðnir og búnir að lána bústaði sína, íbúðir og fleira – auk þess að opna heimili sín. „Það er til dæmis fjölskylda hér í næstu götu sem tók við fjölskyldu frá Grindavík. Börnin eru sex ára og níu mánaða og mun sex ára drengurinn byrja í Vallaskóla á morgun.“

„Það fóru tíu manns upp á Skarð til Björgvins í gær. Þau voru öll frá Rúmeníu. Og það voru fleiri að fara í dag. Þetta er allt fólk sem þekkist og fær að dvelja í gesthúsum og stóru húsi,“ segir Edda og á þar við Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi alþingismann.

Það er augljóst að Edda er meyr og þakklát yfir öllum stuðningnum og velvildinni frá fólki síðustu daga. „Ég vil koma á framfæri miklu þakklæti til allra sem hafa boðið fram aðstoð sína. Fólk hefur komið hingað labbandi inn til okkar og boðið fram aðstoð. Við kunnum ákaflega vel að meta alla þessa aðstoð,“ segir Edda að lokum.

Óbreytt skólastarf í Vallaskóla
Skólahald mun hefjast aftur í Vallaskóla í fyrramálið samkvæmt stundaskrá. Páll Sveinsson, skólastjóri, sendi foreldrum og forráðamönnum tilkynningu um það nú í dag.

Fyrri greinÁtta fluttir á sjúkrahús eftir árekstur
Næsta greinHamar/Þór öruggar á lokasprettinum