Fáeinir hafa leyfi til sölu kartöfluútsæðis

Ellefu bændur á Suðurlandi mega framleiða kartöfluútsæði til dreifingar og sölu, samkvæmt tilkynningu Matvælastofnunar. Níu þeirra eru í Rangárvallasýslu og tveir í Árnessýslu.

Ýmsar reglur eru um dreifingu útsæðis til að varna því að sýking komi upp í þeim. Guðsteinn Hermundsson á Egilsstöðum II í Flóa er einn þeirra sem hefur heimild til að selja frá sér útsæði, hann hefur svokallað stofnútsæðisleyfi. Hann segir öflugt regluverk í tengslum við sölu útsæðis hafa skilað árangri í heilbrigði í kartöflum.

„Já, það hefur gjörbreyst til hins betra,“ segir hann. Sjálfur þarf hann og aðrir þeir sem hafa slíkt leyfi að kaupa útsæði með vissu árafjöldabili af frumræktanda, en þá er verið að koma í veg fyrir að of oft sé ræktað úr sama stofninum.

Kartöflubændur kaupa og selja sín á milli, og alls eru fjórar tegundir kartaflna ræktaðar hérlendis; gullauga, Helga, Premiere og rauðar íslenskar. Fólk sem hefur áhuga á ræktun í heimagörðum getur nálgast kartöfluútsæði víða, og sem dæmi selur Guðsteinn sitt útsæði hjá Jötunn vélum á Selfossi, og svo auðvitað heima á hlaði.

Aðspurður segist Guðsteinn ekki viss hvenær hann muni fyrst setja niður kartöflur á þessu ári, það fari eftir tíðarfarinu. „Ég er með mest af þessu í mold og það getur verið erfitt að fara þar um fyrr en um og eftir miðjan maí,“ segir hann. Alls ræktar hann kartöflur á átta til níu hekturum lands.

Fyrri greinÞrestir í Skálholti 1. maí
Næsta greinSjálfboðaliðar komnir á kreik