Margir Sunnlendingar hafa losnað úr sóttkví síðasta sólarhringinn en fjöldi þeirra sem eru í sóttkví á Suðurlandi núna eru 229, samkvæmt tölum frá lögreglunni á Suðurlandi.
Þann 1. apríl síðastliðinn voru 629 í sóttkví á Suðurlandi þannig að 400 manns hafa lokið henni í dag og í gær.
Í dag eru 38 Sunnlendingar í einangrun vegna COVID-19 og hefur fækkað um þrjá síðustu þrjá daga.
Flestir eru í sóttkví á Selfossi, 82 talsins og þar eru 14 í einangrun. Í Hveragerði og Ölfusi eru samtals 48 og 10 í einangrun.
Athygli er vakin á því að Vestmannaeyjar eru ekki inni í þessari heildartölu Suðurlands, en því er öfugt farið á covid.is.
Á upplýsingafundi dagsins sagði Alma Möller, landlæknir, að líklega sé Ísland farið að nálgast toppinn í þessari farsótt en tala þeirra sem er batnað hefur hækkað meira en greindum smitum síðasta sólarhringinn.