Í dag eru 121 í sóttkví á Suðurlandi vegna COVID-19 og 28 í einangrun. Tölurnar hafa verið jafnt og þétt á niðurleið síðustu daga og fá ný smit greinst.
Flestir eru í sóttkví á Selfossi, 53 talsins og þar eru 12 í einangrun. Í Ölfusi og Hveragerði eru 22 í sóttkví og 7 í einangrun.
Í síðustu viku barst lögreglunni á Suðurlandi töluvert af tilkynningum um meint brot á reglum um sóttkví og samkomubann. Lögreglan hefur farið í eftirlitsferðir í stofnanir og fyrirtæki og segir ánægjulegt hversu samhent fólk er og samhuga um að gera sitt besta í að stöðva útbreiðslu faraldursins. Enginn hefur verið kærður vegna brota á reglum ennþá.