
Á dögunum heimsóttu systkinin Ragnheiður, Guðríður og Baldur Sveinsbörn frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka og færðu safninu að gjöf ljósmóðurtösku móður sinnar, Magnhildar Indriðadóttur.
Magnhildur (1914-1992) var ljósmóðir í Biskupstungum um 40 ára skeið. Í ljósmóðurtöskunni er að finna ýmsan þann búnað sem þurfti til að taka á móti börnum. Sveinn Kristjánsson, eiginmaður Magnhildar, var sérlegur aðstoðarmaður hennar við ljósmóðurstörfin.
Vefstóll var á heimili Magnhildar og Sveins og vann hún við vefnað. Um 1990 kom hún til Byggðasafns Árnesinga með margvíslegar vefnaðarprufur sem eru varðveittar og skráðar hjá safninu.