Bæjarráð Árborgar tók undir ályktun Örnu Írar Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúa S-lista, á fundi sínum í morgun þar sem því er fagnað að Hvammsvirkjun í neðri Þjórsá hafi verið færð úr biðflokki í nýtingarflokk.
Í ályktun Örnu Írar segir að ljóst sé að þessi niðurstaða sé fengin eftir faglega og vandaða umfjöllun verkefnisstjórnar um rammaáætlun og faghóps á hennar vegum.
„Gera má ráð fyrir talsverðum beinum og óbeinum jákvæðum áhrifum á atvinnuuppbyggingu á Árborgarsvæðinu á framkvæmdartíma virkjunarinnar. Einnig er ástæða til þess að árétta, að stærri hluti þeirrar orku sem framleidd er á Suðurlandi verði nýttur til frekari atvinnusköpunar á svæðinu. Nú eru um 4% framleiddrar orku nýtt á Suðurlandi en um 50% af virkjuðu vatnsafli og 70% af virkjuðu afli frá háhitasvæðum koma úr þessum landshluta,“ segir í ályktuninni, sem fulltrúar B-, D- og Æ-lista tóku undir.