Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt að skipa afmælisnefnd til að skipuleggja dagskrá í tilefni af 1200 ára afmæli landnáms Íslands og upphafs Hrunamannahrepps árið 2026.
Upphaflega var skipaður starfshópur um 930 ára afmæli Hrunamannahrepps en á fyrsta fundi hópsins kom fram að Hrunamannahreppur er miklu eldri en svo, þó að sveitarstjórn hafi samþykkt að miða aldur sveitarfélagsins við Tíundarlögin sem sett voru árið 1096. Hrunamannahreppur hefur ávallt verið skýrt landfræðilega afmarkaður, aldrei sameinast öðrum hreppi og er getið í mörgum heimildum um landnám Íslands.
Því lagði hópurinn til að halda frekar upp á 1.200 ára afmæli landnáms og um leið upphafs hreppsins. Sveitarstjórn samþykkti þetta á síðasta fundi sínum og vegna umfangs verkefnisins var starfshópurinn gerður að afmælisnefnd undir formennsku Estherar Guðjónsdóttur.
Horft er til þess að hefja formlega hátíðardagskrá á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 2026, og síðan yrði siglt inn í helgina þannig að aðal hátíðarhöldin yrðu 20.-21. júní, enda hefðu þá goðar allir komið til þings er tíu vikur eru af sumri þegar Hrunamannahreppur var að verða til árið 826.