Í síðustu viku opnaði nýr tækjasalur í íþróttahúsinu á Flúðum. Íbúar hafa beðið spenntir eftir að hann yrði tekin í notkun og nú þegar hafa margir nýtt sér þessa góðu aðstöðu. Opnunartímar í húsinu hafa einnig verið lengdir til muna.
Á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku var svo samþykktur leigusamningur vegna rýmis fyrir sjúkraþjálfun í íþróttahúsinu. Samningurinn var svo undirritaður nú í morgun við Sigfríð Lárusdóttur, sjúkraþjálfara, en hún er Hrunamönnum vel kunn enda búin að búa þar í sveit til langs tíma.
Sigfríð hefur í rúman áratug óskað eftir því við sveitarfélagið að starfrækja sjúkraþjálfun á Flúðum og við breytingarnar á húsinu var unnið að nánari útfærslu á aðstöðu og hönnun rýmisins í samráði við hana.
„Það er fagnaðarefni að sjá þetta loks allt verða að veruleika og verður að segjast að við tökum vel á móti nýju ári með bættri aðstöðu og meiri þjónustu í heimabyggð,“ segir Jón Bjarnason, oddviti Hrunamanna.