Fangelsismálastjóri fagnar tillögu meirihluta fjárlaganefndar um að veittar verði 55 milljónir króna á næsta ári til öryggismála í fangelsum. Þar af fara 50 milljónir til fangelsisins á Litla-Hrauni.
„Þetta er nákvæmlega það sem þurfti. Það þarf að tryggja uppbyggingu á Litla Hrauni. Við tókum nýlega saman lista yfir helstu atriði sem þyrfti að bæta þar og áætlað var að brýnustu úrlausnarefnin kostuðu 50 milljónir,” segir Páll Winkel fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is.
Meðal þess sem hann segir fangelsið þarfnast eru leitarskanni, leitarhlið og aðstaða til að leita á gestum og í farangri. Einnig þarf að endurnýja ýmsan búnað eins og girðingar og öryggismyndavélar. Hugsanlega verður byggt við fangelsið í þessum tilgangi.