Sveitarfélagið Árborg hefur, eftir útboð, gert samning við Fagradal ehf. um kaup á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði á lóðinni Tryggvagötu 36 á Selfossi, svokölluðum Glaðheimareit.
Um er að ræða 3.084 m2 lóð miðsvæðis á Selfossi og er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á lóðinni.
Fimm tilboð bárust í lóðina og bauð Fagridalur ehf. hæsta verð, tæplega 151,3 milljónir króna. Framkvæmdaaðili mun nú gera tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina og leggja fyrir skipulagsnefnd Árborgar áður en framkvæmdir geta hafist.
Gera má ráð fyrir að skipulagsferlið taki nokkra mánuði og framkvæmdir geti hafist á lóðinni síðla næsta sumar.
„Það er ánægjulegt að trú framkvæmdaaðila á uppbyggingu í Árborg sé eins mikil og raun ber vitni. Það verður síðan spennandi að sjá hugmyndir framkvæmdaaðila fyrir lóðina sem er einstaklega vel staðsett á Selfossi,“ sagði Bragi Bjarnason, bæjarstjóri af þessu tilefni.