Lögreglumenn frá Selfossi höfðu afskipti af manni á sjötugsaldri í landi Nesja í Grafningi skömmu eftir hádegi í gær þar sem grunur lék á um að maðurinn væri á rúpnaveiðum á landsvæði þar sem þær eru alfarið bannaðar.
Maðurinn neitaði að hafa verið að veiða rjúpur en sagðist hafa verið að viðra hundinn sinn. Enginn skotvopn eða bráð var í vörslu mannsins.
Rétt eftir að afskiptum af honum lauk og hann lagður af stað frá lögreglumönnunum fundu þeir haglabyssu og skot grafin í snjó. Maðurinn hafði grafið vopnið og skotin í snjóinn þegar hann sá til lögreglumannanna.
Vopn og skot voru haldlögð og maðurinn kærður fyrir að hafa verið að ólöglegum veiðum.