Í almennu umferðareftirliti við Hvolsvöll á laugardag stöðvuðu lögreglumenn fólksbifreið þar sem ástæða þótti til að kanna hvort farþegi væri með fíkniefni.
Hann heimilaði leit á sér og í vasa hans fannst lítið súkkulaðiegg sem innihélt hvítt duft sem grunur lék á að hafi verið fíkniefni. Efnið var haldlagt og verður sent í rannsókn. Maðurinn var yfirheyrður og látinn laus að því loknu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Aðfaranótt sunnudags voru þrír menn í bifreið handteknir á Suðurlandsvegi við Landvegamót. Ökumaður var grunaður um að vera undir áhrifum fikniefna auk þess var grunur um að fíkniefni væru í bifreiðnni. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu á Selfossi og þeir síðar yfirheyrðir.
Í bifreiðinni fundust um 20 grömm af kókaíni og nokkrar óþekktar töflur.
Ökumaður sagði rangt til nafns og allir neituðu að eiga efnin en voru meðvitaðir um hvaða efni væri um að ræða. Þremenningarnir voru látnir lausir að loknum yfirheyrslum.