Þingborgarhópurinn í Flóahreppi stóð fyrir höfuðfatasamkeppni á meðal landsmanna á dögunum, þar sem leitað var að fallegasta höfuðfatinu 2014.
Alls bárust fimmtíu höfuðföt í samkeppnina allsstaðar af landinu.
„Við byrjuðum að skipta innsendingunum í kollhúfur, skotthúfur, hjálma og hatta. Það voru ekki veitt verðlaun í þessum flokkum, heldur var þetta einfaldlega viðmið. Almennt séð má segja að svartur eða dökkir litir hafi verið nokkuð ríkjandi í keppninni.
Það þarf þó ekki að vísa til svarsýni en alla vega vísar það til vissrar alvöru, en gáski og glæfrasemi, svona kjötkveðjustemming var hvergi að finna, stundum er svarti liturinn líka litur trúarinnar, vitni um að verið sé að leita sér að festu,“ segir Hildur Hákonardóttir, umsjónarmaður höfuðfatakeppninnar og ein úr Þingborgarhópnum.
Sigurvegari í keppninni var Guðrún Ásgeir Steingrímsdóttir á Húsavík. Í umsögn dómnefndar segir: „Þessi hattur reyndist sameina svo margt, gott snið, vel þæfður, einfaldur en þó ísmeygilegur. Skinnpjatlan minnir bæði á reigðan hanakamb en vísar um leið í þjóðarskart okkar, faldspaðann“.