„Þetta er afskaplega fallegur fullorðinn fugl. Það hefur verið talsvert um arnameldingar á Suðurlandi í vetur, sennilega meira en venjulega,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur á Stokkseyri.
Sunnlenska bar undir hann myndir af erni við Hólá neðan við Laugardalshóla í Bláskógabyggð, sem Rúnar Gunnarsson tók í síðustu viku.
Að sögn Jóhanns Óla hefur fullorðinn fugl einnig haldið til í Ölfusinu í vetur og sést á flugi við Selfoss og Ingólfsfjall. Einhverjir fuglar hafa líka sést við Rangárnar.
Fuglinn við Hólá hefur verið þarna á ferð af og til eftir áramót og vekur alltaf jafn mikla athygli enda tignarlegur og fallegur.