Fangar smíðuðu „Fjallræðu-púlt“

Meðal atriða á Sólbakkahátíð vestur í Önundarfirði þann 20. ágúst sl. var vígsla á fjölnota ræðupúlti sem smíðað var á trésmíðaverkstæði Litla-Hrauns.

Fangi sem þar starfar fékk það verkefni að byggja önfirska fjallahringinn utan á ræðupúlt þannig að fjallið Þorfinnur fengi þar heiðurssæti á framhlið púltsins. Naut hann aðstoðar fleiri fanga við verkið sem vakti mikinn áhuga og innihaldsrík innlegg þeirra sem að komu.

Gekk þetta vonum framar og þegar að verklokum kom var orðin til fjölnota gripur:

  • Ræðupúlt; af bestu gerð og m.a. fyrir „Fjallræður“ stuttar og langar.
  • Kjörkassi; því ofan á púltinu er rifa fyrir atkvæðaseðla
  • Lottókassi; þar sem nota má rifuna fyrir lottóseðla.

Verkstjóri á Trésmíðaverkstæði Litla-Hrauns er fangavörðurinn Guðmundur Friðmar Birgisson á Stokkseyri og hafði hann umsjón með verkinu ásamt Birni Inga Bjarnasyni sem gaf staðfærðar ráðleggingar.

Á Sólbakkahátíðinni skilaði ræðupúltið sínu hlutverki vel fyrir ræður; stuttar og langar og sem Lottó-kassi í Sólbakka-lottóinu.

Fyrri greinHeimskautamyndir á íþróttahúsinu
Næsta greinHaukar og HK með sigra