Nýtt fangelsi að Sogni í Ölfusi var formlega tekið í notkun nú um mánaðarmótin. Gert er ráð fyrir að vista þar allt að tuttugu fanga.
Fangelsið er skilgreint sem „opið“ fangelsi og verður það rekið sem útibú frá öryggisfangelsinu á Litla-Hrauni.
Fangelsið að Sogni leysir af hólmi fangelsi það sem rekið var að Bitru og tekið var í notkun á árinu 2010. Gerðar hafa verið töluverðar endurbætur á húsnæðinu sem áður hýsti réttargeðdeild sem var flutt á Klepp í Reykjavík. Aðbúnaður er góður og þar starfa átta fangaverðir.
Við opnun fangelsisins sl. föstudag bauð forstöðumaðurinn, Margrét Frímannsdóttir, gesti velkomna. Til máls tóku Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, Sigurður Guðmundsson, formaður fangavarðafélagsins og sr. Hreinn Hákonarson, fangelsisprestur sem blessaði starfsemi fangelsisins.