Pólskur karlmaður sem stal peningum og skartgripum úr ólæstum húsum á landsbyggðinni í sumar hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi.
Ísland er áttunda landið þar sem hann er dæmdur fyrir afbrot.
RÚV greinir frá þessu.
Lögreglan hafði hendur í hári mannsins í júní eftir röð húsbrota, en hann fór aðeins inn í ólæst hús svo vitað sé.
Á Eyrarbakka stal hann 125 þúsund krónum, 400 evrum og myndavél. Hann fór inn svefnherbergi í Þorlákshöfn og hafði á brott með sér skartgripi úr læstu skríni og peninga úr veski.
Hann stal einnig úr húsi á Hellissandi en á Fáskrúðsfirði kom húsráðandi að honum. Það endaði með því að maðurinn sló húsráðanda í kviðinn og lagði á flótta í bíl. Lögregla veitti bílnum fyrirsát í Breiðdal þar sem hann hafnaði utan vegar og kom í ljós að faðir hans sat undir stýri.
Eftir að feðgarnir voru látnir lausir úr gæsluvarðhaldi hélt sonurinn uppteknum hætti og var handtekin seint í ágúst eftir tvö húsbrot á Snæfellsnesi.
Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi verið dæmdur til refsingar 12 sinnum síðustu 10 árin en aldrei áður á Íslandi. Maðurinn hefur hlotið dóma, í Noregi, Austurríki, Þýskalandi, Danmörku, Lúxemborg, Svíþjóð og í heimalandinu Póllandi fyrir þjófnað, eignaspjöll, eiturlyfjasmygl og fleira.
Maðurinn játaði brot sín hér en Héraðsdómur Suðurlands ákvað að 18 mánaða fangelsisrefsing yrði ekki skilorðsbundin, sem þýðir að hann þarf að sitja inni. Auk þess er honum gert að greiða rúma milljón í málskostnað.