Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku fanga á Litla-Hrauni í tíu mánaða fangelsi fyrir árás á þrjá fangaverði í fangelsinu í mars á þessu ári.
Maðurinn veittist að fangavörðunum þremur þar sem þeir voru við skyldustörf í fangelsinu. Hann sló einn þeirra ítrekað í höfuðið, reif í hár og klóraði annan og sló þann þriðja í ennið. Tveir fangavarðanna hlutu sár af árásinni og gleraugu tveggja eyðilögðust.
Við fyrirtöku í héraðsdómi í júní neitaði maðurinn sök en í upphafi aðalmeðferðar í september breytti hann afstöðu sinni og viðurkenndi skýlaust sekt sína.
Maðurinn á að baki dóma fyrir fíkniefnabrot, rán, fjársvik og tilraun til fjársvika, þjófnað, hylmingu, skjalafals og eignaspjöll. Samkvæmt sakavottorði hófst sakaferill mannsins árið 2007.
Auk tíu mánaða fangelsisdóms var manninum gert að greiða allan sakarkostnað, rúmlega 540 þúsund krónur.