Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í dag konu á sjúkrahús til Reykjavíkur eftir að hún hafði fundist meðvitundarlaus í sundlauginni á Hellu.
Útkallið barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 13:48.
Konan komst fljótlega til meðvitundar en hins vegar var það mat læknis á staðnum og læknis í áhöfn þyrlunnar að sækja konuna og flytja hana til Reykjavíkur.
Fór TF-LIF í loftið um stundarfjórðungi yfir tvö og lenti á Hellu tæplega 25 mínútum síðar. Gekk vel að koma sjúklingnum um borð og þyrlan lenti aftur í Reykjavík laust eftir klukkan þrjú.
Á mbl.is kemur fram að konan er íslensk og á sextugsaldri. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi brugðust starfsmenn sundlaugarinnar hárrétt við þeim aðstæðum sem komu upp í lauginni.